Um mig
Vilma Home er netverslun í Mosfellsbæ sem rekin er af Vilmu Ýr Árnadóttur
Vilma er eigandi VilmaHome.is netverslunar, sem stofnuð var 11. ágúst 2023.
Hugmyndin VilmaHome.is kviknaði þegar ég var að vinna sem verslunarstjóri í 19 ár á tilteknum vinnustað, ég á tvo unga stráka, eiginmann og er með heimili sem þarf einnig að hugsa um.
Ég var líka að reyna að sinna sjálfri mér á sama tíma, mætti samviskusamlega í ræktina alla morgna klukkan 05:40 og hélt ýmsum boltum á lofti.
Þegar maður hefur mikið að gera, þá gleymir maður oft að hugsa um sjálfan sig, og það sem ég var aðallega að gleyma á hlaupum, var að drekka vatn.
Það hafði blundað í mér síðan ég var barn að vera með mína eigin verslun og alltaf hefur hugur minn verið við það að þora að taka af skarið, þora að fara vel út fyrir þægindarammann og gera það sem mig dreymir um að gera.
Það sem mér fannst vanta hingað heim til Íslands, voru brúsar sem rúma meira en 500 millilítra, halda köldu lengi og hægt að taka með í amstur dagsins svo að ekki gleymist þetta lykilatriði; að drekka vatn!
Þetta var kveiki þráðurinn að draumnum mínum, að hanna brúsa sem halda köldu lengi, og ekki var verra að þetta væri brúsi sem lætur þig ósjálfrátt vilja drekka meira vatn.
Ég gerði heimasíðuna sjálf frá grunni, hún var alls ekki fullkomin og margt sem hefði mátt fara betur þegar síðan var opnuð, en það sem ég er stoltust af, er að hafa ekki gefist upp.
Það komu svo mörg atriði upp, sem hefðu getað gert það að verkum, að ég hefði mögulega gefist upp, en ég hélt áfram. Innsæið mitt öskraði lika á mig að gefast ekki upp.
Fyrsta sending sem kom af Vilma Home brúsunum, seldist upp á 2 klukkustundum, ég var gjörsamlega orðlaus yfir þessu. Við hjónin vorum heima að pakka brúsum langt fram eftir kvöldi.
Næsta sending sem kom í hús, það var jólasendingin, hvorki meira né minna en 6 bretti af brúsum, og við ekki með bílskúr né góða geymslu til að geyma vörurnar. Við geymdum því vörurnar hérna á gólfinu inni í stofu. Strákarnir okkar voru nú bara frekar sáttir með þetta, kassar sem hægt var að fela sig í og búa til virki. Svona voru jólin 2023; það var jólatré í horninu og svo kassar út um allt.
Alls ekki bjóst litla Vilma við að þetta myndi fara svona vel af stað, en þessir tímar voru mjög krefjandi, ég var í 120% vinnu og maðurinn minn líka, jólaösin sem fylgir því að vinna í verslun var líka krefjandi. Við komum heim eftir vinnudaginn og fórum beint í að pakka pöntunum, sinna börnunum og allt sem því fylgir. En mér fannst þetta æðislegt. Er ennþá svo þakklát hvað allt fór vel af stað.
Þarna kviknaði neistinn inni í mér að gera eitthvað meira. Einnig vildi ég vera meira með börnunum mínum, ég var alltaf vinnandi, vann um helgar og einhverja daga til kl.19/19:30 á kvöldin á þáverandi vinnustað. Ég fann að börnin mín þurftu mömmu sína miklu meira svo ég sagði upp vinnunni minni 30.september 2024 og fór þá allur fókusinn minn á fjölskylduna og fyrirtækið mitt.
Ég er svo þakklát í dag að fá að gera það sem ég elska. Að skapa og veita framúrskarandi þjónustu er eitt af mínum lykilatriðum. Núna í dag hýsir VilmaHome.is allar vörurnar sínar hjá Gorilla Vöruhúsi sem stendur sig frábærlega í að afgreiða vörur og færa þær viðskiptavinum. Þá hef ég tíma til að fókusa á þjónustu og næstu vörur sem eru í vinnslu fyrir annasamt fólk á ferðinni, fólk sem á það til að gleyma sér í amstri dagsins.
Fleiri spennandi vörur koma fljótlega í sölu á síðunni.
Nafnið Vilma Home kom frá Instagram reikningi mínum en ég held úti einstaklega filterslausum miðli, þar sem ég læt ýmislegt flakka og er ekki mikið að ofhugsa hlutina.
Ég reyni alltaf að vera jákvæð og hvetjandi fyrir mína fylgjendur. Miðillinn byrjaði þar sem ég var að sýna ýmislegt innanhústengt, útstillingar og fleira. Ég hef brennandi áhuga á öllu innanhústengdu og elska að stílisera, raða og gera fínt hér heima, líka þegar ég vann sem verslunarstjóri.
Ég er einnig farastjóri /skemmtanastjóri í sérstökum skemmtiferðum fyrir konur og vinn þar með Visitor ferðaskrifstofu. Næsta ferð verður á Mamma Mia the party í London í október nk. Hinar ferðirnar sem við höfum farið í, hafa heldur betur slegið í gegn.
Hægt er að lesa meira um ferðina eða bóka hér :
Lokaorð frá mér: Hættu að ofhugsa hlutina og hlustaðu meira á hvað innsæið er að reyna að segja þér.
Þú ert ekki tré og þú mátt alveg færa þig og leyfa draumunum þínum að rætast.
Miklu betra að prófa en að lifa í hugsuninni hvað ef? 🤎🤎
